Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Ótímabær aftaka Saddam Hussein.Rannsóknir á glæpum hans haldið áfram að honum látnum.

Íslandsdeild Amnesty International fordæmir aftökuna og meingölluð rétthöld yfir Saddam Hussein. Dauðarefsingar eru einnig fordæmdar af ísl.stjórnvöldum.Það vakti strax mikla athygli þegar dauðadómur var kveðinn upp yfir honum án þess að lokið væri nema litlum hluta af rannsóknum á glæpaferli hans.Svo virðist sem þyngst hafi vegið hjá dómstólnum um sakargiftir gegn honum voru dráp á annað hundrað manns,sem stóðu að uppreisn gegn honum á sínum tíma.Af hverju birtir ekki dómurinn niðurstöður rannsókna á eiturvopna  manndrápum Saddams á annað hundrað þúsund kurdum og tugþúsundum trúarandstæðingum hans sjitum og 8.ára stríði við Iran o.fl.

Best hefði verið fyrir framtíð lýðræðis í Írak (ef af því verður) að rannsaka þessa stríðsglæpi til hlýtar svo þeir valdi ekki eilífðar átökum trúarflokka um ókomna framtíð um óupplýsta glæpi..Ef réttarhöldin yfir Saddam hefðu verið til lyktar leidd, hefðu hugsanlega mátt nota niðurstöður þeirra að hluta  til lýðræðislegrar breytingar og uppbyggingar í landinu.Þá er það í algjörri mótsögn a.m.k.við réttarvenjur í vestur Evrópuríkjum að dæma aðeins fyrir hluta glæpa sakborninga.Það er ekki óeðlilegt að spurt sé hvaða áhrif Bush stjórnin hafði á framgang réttarhaldanna og tímaákvörðunar aftökunnar.

Ég held að flestir hljóti að telja réttarhöldin meingölluð og samræmis engan veginn lýðræðislegri réttarmeðferð.Sjálfsagt erum við flest sammála þungum refsingum fyrir jafn alvarlega stríðsglæpi og þjóðarmorð sem Saddam Hussein framkvæmdi,en þó ekki dauðadóm.


Áskorun til landsmanna að versla einungis við slysavarnar -og björgunarfélög á flugeldum.

Ég hugsa um það við hver áramót af hverju Landsbjörg hefur ekki einkarétt á sölu flugelda í landinu.Þeir sem vinna sjálfboðavinnu við björgunarstörf hér á landi eru í mínum huga hetjur,sem ég veit að öll þjóðin  er stolt af.Þeir fara í hundruð útkalla á hverju ári,vettvangurinn er  allt landið með öllum þeim ólíku og hættulegu andstæðum,þar sem veðrið er oftast stærsti orsakavaldur slysa.Hversu oft heyrum við af hetjunum okkar í aftakaveðrum á leið á slysstað.Öll þjóðin fylgist með,það er eins og við séum öll þátttakendur á slíkum stundum.Ég held því fram að engin þjóð eigi betri björgunarsveitir en við Íslendingar og eru þar að sjálfsögðu meðtalin hin frábæru störf flugbjörgunarsveita.

Það er bara einokrun að leyfa slysavarnarfélögum að sitja einir að þessum viðskiptum,sagði einni af þessum fégráðugu frjálshyggjumönnum við mig þegar ég lýsti skoðun minni um einkarétt Landsbjargar.Ég sagði við hann,við vitum aldrei hvort næsta slysaútkall varðar þína eigin hagsmuni eða þinna nánustu,en við vitum að hundruð útkalla bíður þeirra á næsta ári,hversu alvarleg vitum við ekki.Ég skora á löggjafarþingið að setja lög um einleyfi á sölu flugelda til slysa - og björgunarfélaga.


Hver fyrirskipaði að eyða heimildargögnum lögreglunnar um símahleranir og hver framkvæmdi þær?

Nú þegar sýslumaðurinn á Akranesi hefur lokið rannsókn á meintum símhlerunum hjá Jóni Baldvin Hannibaldssyni fyrrv.utanríkisráðhr.og Árna Árnasyni starfsm.í utanríkisráðuneytinu ,sem fyrirskipaðar voru af ríkissaksóknara.Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu ekkert í ljós ,enda fyrirfram vitað að öll vitnin í málinu gátu ekki greint frá málavöxtum,þar sem þau höfðu öll unnið trúnaðarheit sem löggæslumenn um þagnarskyldu í starfi.Undan þeirru þagnarskyldu hefði þurft að leysa þá með lagasetningu á alþingi hefðu menn ætlað í alvöru að fá niðurstöðu í málinu.Vitanlega átti dómsmálaráðhr.að hafa forgöngu um slíka lagabreytingu svo málið fengi eðilegan framgang.Þegar dómsmálaráðhr.kemur svo fram fyrir alþjóð  eftir að rannsókn lauk og lætur að því liggja eins og fleiri flokksbræður hans að Jón Baldvin   hafi verið með fleipur,engar símahleranir hafi farið fram á skrifstofu hans í utanríkisráðuneytinu.Björn Bjarnason vissi allan tíman að engrar niðurstöðu væri að vænta v/þagnarskyldu vitna í málinu.Þá er ekki heldur vænlegt til úrlausnar að lögreglan rannsaki meint brot annara lögreglumanna.Hins vegar fannst dómsmálaráðhr.það ágætis málsmeðferð,sem samræmdist lögum.

Dómsmálaráðhr.hefði hins vegar átt að beita sín með lögformlegum hætti fyrir rannsókn um hvaða  símahlerunar gögnum virðist hafa verið eytt (brennd)hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík,hvenær og hvar það var gert,hverjir framkvæmdu verknaðinn og hver fyrirskipaði gjörninginn.Þá mættii  upplýsa þjóðina um leynilega  samvinnu  Bandaríska sendiráðsins og varnarliðsins, við flokksbræður dómsmálaráðhr.í gegnum árin.Ég gæti hugsanlega veitt einhverja aðstoð við uppsljóstrun þeirra mála.Það þarf ekki að veita Jóni Baldvin neina aðstoð í þessu máli,það er ennþá óupplýst,enda fjölmargir endar lausir,sem ekki verða bundnir saman með svona rannsóknarmáta. 

 


Það ríkir löng hefð fyrir kæstu skötuáti hér á landi.Nú er svo komið að bannað er í sambýli að matreiða hana.

Ég hef undanfarin ár fengið mér skötu á Þorláksmessu með Vilhjálmi syni mínum.Þetta er nú frekar gert af einhverri gamalli hefð,frekar en að maturinn bragðist vel.Fyrir nokkrum árum bauð ég bandaríkjamanni af Keflav.flugv.í skötu.Nokkur biðröð var og hafði hann strax að orði að hann þyldi ekki lyktina.Reyndar hafði ég ekkert undirbúið hann né skýrt fyrir honum matargerðina,aðeins sagt honum frá því að um væri að ræða fiskrétt.Án þess ég veitti því athygli var hann horfinn úr biðröðinni og það sem meira var ég sá hann aldrei eftir þetta.Önnur saga um þjóðréttarmat okkar sviðakemma.Var staddur ásamt félögum mínum á þingvöllum en andspænis okkur sátu tveir ungir bandaríkjamenn.Þegar við fórum að handleika kjammana og stinga úr þeim augun,horfðu þeir á okkur óttsleignir og spurðu hvað við værum að borða.Einn kunningja minna,sem er nú mikill hrekkjalómur sagði að bragði,þetta eru þeir svörtu,þeir eru fjandi góðir.Bandaríkjamennirnir hlupu frá borðinu og gleymdu baktösku.Hrekkjalómurinn hljóp á eftir þeim með töskuna og kallaði á þá,en þeir flýttu sér mest þeir máttu inn í bíl og óku greitt í burtu.

Í sveitinni í gamla heyrði maður um bragbætta skötu sem pissað var á reglulega meðan hún var kæst.Þessar sögur nægðu mér til að bragða aldrei á skötu í sveitinni.Náttúrlega lyktar skatan ekki eins og mannamatur,enda vill ekkert dýr eta hana. 


Hvað þarf til að vera í völdu bloggi,hvaða reglur gilda um uppröðun þess?

Er smásaman að læra á þetta kerfi og sífellt fjölgar  þeim sem koma á mína heimasíðu.Gott væri ef einhver vildi upplýsa mig um hvað maður þarf að hafa til brunns að bera til að vera í völdu bloggi efst á framsíðunni.Við sem ekki njótum þeirra forréttinda  hverfum  afar skjótt af  henni og verðum að horfa á hið valda blogglið sem virðast hafa forgang að þessum stað.Gott að fá að vita hvaða reglur gilda fyrir svona uppröðun svo maður geti orðið einn af hákörlunum.

Gleðileg jól og farsælt nýtt ár.Þakka skemmtilegar og áhugaverðar greinar.


Mjög alvarleg brotalöm í framkvæmd réttarkerfisins í nauðgunarmálum.Nú er mælirinn fullur.

Eins og kunnugt er úr fréttum var rúmlega tvítugur karlmaður Edward Apeadu Koranteng dæmdur i þriggja ára fangesli  fyrir nauðgun  á fjórtán ára gamalli stúlku.Hann var einnig kærður fyrir að nauðga þrettan ára stúlku eftir að dómur féll í máli hans og var hann þá settur í viku gæsluvarðhald meðan rannsókn fór fram á því máli.Hann hafði frest til að áfrýja þeirri niðurstöðu.Síðan er honum  sleppt þar sem lögreglan taldi  sig ekki  hafa skilyrði til að halda honum lengur í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna.Hugsið ykkur fáranleikann að sleppa manninum lausum eftir tvær nauðganir.

Nauðgun er andlegt og líkamlegt ofbeldi sem flokkast undur  eitt  af alvarlegastu hegningalaga brotum ísl.réttarfarskerfisins.Það er óskiljanlegt  hversu léttvægum tökum réttarkerfið tekur á þessum málaflokki.Af hverju var manninum ekki haldið í gæsluvarðhaldi eftir að dómur hafði verið kveðinn upp og afplánun hæfist?Þá hefði ekki komið til seinna nauðgunarmálsins á þrettán ára stúlkubarni.Svona málsmeðferð er hrein skömm fyrir réttarkerfið,það verður að breyta lögum um framkvæmd gæsluvarðhalds.Þetta mál er enn ein sönnunin fyrir  skilningsleysi á afleiðingum nauðguna hér á landi.Það er löngu tímabært að fara ofan í saumana á rannsóknum þessa mála og hinum léttvægu dómum fyrir nauðungarbrot.

Ég skora á dómsmálaráðhr.og löggjafarþingið að koma  þessum málum í réttan farveg innan réttarkerfisins.Það er erfitt fyrir gamlan löggæslumann að horfa upp á svona málsmeðferð.

  


Eigum við einhverja leyniþjónustu í leyni,hvaða bull er þetta?

Lögboðin öryggis - og leyniþjónusta þarf að vera hér til staðar eins og hjá öðrum fullvalda ríkjum.Við getum ekki verið að bulla eitthvað með starfsheiti leyniþjónustu sem ekki er til.Það hefur hins vegar oftsinnis valdið löggæslunni  vandkvæðum í samskiptum við erlendar leyniþjónustur að vera hér ekki með lögboðna ísl.leyniþjónustu.

Því miður eru tillögur dómsmálaráðhr.um öryggis - og greiningardeild einhvers konar hálfkák,hræðsla og dugleysi að taka sporið til fulls.Virðist  reyndar vera frekar einhvers konar viðhengi við starfsemi ríkislögreglustj.sem er þó nóg af fyrir.Þessi mál verða að grundvallast á vel skilgreindum lögum og reglum,þar sem skipulag,sjálfstæði og frumkvæði er skýrt og afdráttarlaust.

Á forsíðu Blaðsins í dag er skýrt frá blaðaviðskiptum sýslumannsins  á Keflav.flugv.við norsku leyniþjónustuna,þar sem hann titlar sig sem framkvæmdastj. íslensku leyniþjónustunnar.Icelandic Intelligence service HS NATO.Aðspurður segir sýslumaðurinn  að þetta sé bara vinnutitill hans,sem sé notaður með vitund utanríkis - og dómsmálaráðuneytisins.Dómsmálaráðhr.segist í umræddri grein Blaðsins ekkert vita fyrir hverju HS standi.Þetta  leyniþjónustu starfsheiti á víst að auðvelda sýslumanninum samskipti við kollega sína erlendis.Það er náttúrlega ekki við hæfi að starfsm.utanríkisráðuneytisins taki sér svona nafngift til vinnuhagræðingar.Það er ekki sæmandi starfsm. utanríkisráðuneytisins að  þurfa að framvísa tveimur nafnskírteinum  erlendis.til að sanna hverjir þeir eru.


Var uppljóstrun Stöðvar 2 réttlætanleg v/vítaverðs afskiptaleysis viðkomandi stjórnvalda?

Hvaða eftirlit höfðu utanríkis- félags - og heilbrigðismálaráðuneyti með faglegum rekstri Byrgisins um árabil og hvernig fjármálum þess var háttað?Nú hefur landlæknir staðfest að Byrgið hafði enga faglega heimild til að afeitra sjúklina.Því er eðlilega spurt af hverju fyrrverandi og núverandi landlæknar stöðvuðu ekki rekstur Byrgisins þar til umbætur væru gerðar?Þá má spyrja viðkomandi ráðuneyti sem báru ábyrgð á úthlutun fjármagns  til reksturs meðferðarheimilisins um árabil ,af hverju  ekkert raunhæft eftirlit var með notkun fjársins?Kannski er líka þörf á að spyrja hvort launagreiðslur Byrgisins til starfsmanna hafi verið rétt uppgefnar til skattayfirvalda?Að lokum væri fróðlegt að fá skýringu sýslumannsins á Selfossi af hverju embætti hans framkæmir ekki sjálfstæða rannsókn á umfjöllun Kompáss um Guðmund Jónsson og hins vegar  framburð Guðmundar Jónssonar um meint fíkniefna brot starfsmanns Kompáss.

Nú loksins þegar Kompáss  hefur skýrt frá fjármálaóreiðu meðferðarheimilisins hefur     félagsmálaráðhr. loksins óskað eftir að ríkisendurskoðun fari yfir bókhaldið.Önnur embætti sem einnig eiga  hlut að máli ættu að sjá sóma sinn í að hreinsa garðinn.Þá er löngu tímabært að setja heildstæða löggjöf um rekstur sjálfseignastofnana meðferðaheimila.


Af hverju er ekki umfjöllun Kompáss næg ástæða til sérstakrar rannsóknar að mati sýslumannsins á Selfossi?

Satt best  að segja skil ég ekki afstöðu sýslumannsins í málinu.Eins og fram hefur komið hjá fréttastj.Stöðvar 2 er um trúnaðarupplýsingar að ræða sem fréttin um forstöðumann Byrgissins Guðmundar Jónssonar byggist á.Þá hefur komið fram að forstöðumaðurinn neitar öllum sakargiftum.Meint afvarleg sakarefni eins og hér um ræðir eiga að fá  að mínu mati lögformlega meðferð  hjá sýslumanninum strax.Rannsókn þessa máls ætti ekki vefjast fyrir reyndum rannsóknarlögr.m.,þar sem um fámennan hóp vistmanna er að ræða sem getur hafa staðið að trúnaðarupplýsingum til fréttastöðvarinnar.

Þá tel ég að Guðundur Jónsson forstöðumaður ætti sjálfur að hafa frumkvæði að opinberri rannsókn málsins fyrst hann telur sig saklausan.Geri hann það ekki fara menn að trúa því að hann hafi óhreint mjöl í pokanum.

Þetta mál hefur víðtækar og slæmar afleiðingar ekki aðeins fyrir meðferðarheimilið heldur alla þá sem hafa stutt og treyst  þessari starfsemi um langt árabil.Fáum niðurstöðu sem allra fyrst í þessu máli það er öllum fyrir bestu 


Guðmundur Jónsson,forstöðumaður Byrgisins ásakaður á Stöð 2 um meint kynferðisafbrot,fjármálaóreiðu o.fl.

Svona frétt kemur eins og holskefla yfir alla þá sem láta sig varða rekstur meðferðaheimila fyrir áfengis - og fíkniefnasjúklinga.Fjölmiðlar verða að gæta fyllstu varúðar við svona féttaflutning vegna þeirra fjölmörgu aðila,sem með einum eða öðrum hætti tengjast meðferðarheimilinu.Sé frétt stöðvarinnar sönn  þ.e. grundvölluð á staðfestum framburði og gögnum,hefðu fréttam.átt að upplýsa lögregluna tafarlaust um vitnesku sína í málinu,enda skylda hvers manns að tilkynna lögreglunni um refsiverða verknaði.Ég veit náttúrlega ekkert um samskipti lögreglunnar og fréttamanna í málinu við frumathugun málsins.

Eins og þekkt er getur svona fréttaflutningur farið úr böndunum og þá erfitt að höndla sannleikann síðar meir,því fyrsta frétt skorar mest eins og kunnugt er.Eigum við ekki að sameinast um að bíða niðurstöðu lögreglunnar það er hennar að sanna sýkn eða sekt viðkomandi.Ég ætla ekki að svo komnu máli að álasa Stöð 2 fyrir umræddan fréttaflutning hafi þeir staðið að  meintri uppljóstrun málsins með lögmætum hætti. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband