Enn bíður þjóðin eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar - Seðlabankinn ræður ekki för krónunnar.
5.6.2008 | 22:36
Af hverju kemur ríkisstjórnin ekki fram með opinbera aðgerðaráætlun í verðbólgu og vaxtamálum.Er ríkisstjórn ekki samstíga um aðgerðir í þessum málum.Nú er spáð 10 % verðbólgu út árið,en 6 % verðbólgu á næsta ári og 6% atvinnuleysi.Slíkar spár kalla á aðgerðir ríkisstjórnarinnar strax.Eins og áður hefur komið fram eiga nú 27 þúsund íbúðareigendur ekki fyrir skuldum.Með sama ráðleysi og aumingjahætti ríkisstjórnarinnar blasir við gjaldþrot tugi þúsunda heimila í landinu.
Nú þegar er fjöldi landsmanna farnir að undirbúa brottför úr landi og þá eru einkanlega námsmenn,sem hugðu á heimkomu frestað henni.Allt er þetta að gerast út af ráðleysi ríkisstjórnarinnar og röngum stjórnarháttum.Ríkisstjórnin og Seðlabankinn einblína á styrkingu handónýtrar krónu,sem getur einhliða aldrei orðið nein lækning á okkar efnahagsmálum.Um það er mikill meirihluti þjóðarinnar sammála eins og komið hefur fram í endurteknum skoðanakönnunum ,nema þingflokkar Sjálfstæðisfl.og VG.
Það vita allir heilvita menn,að þjóðin verður að hafa virkan gjaldmiðil.Við verðum því strax að leysa þau mál.Ég held að þjóðin eigi núna að ganga til kosninga um umsókn að aðild í ESB.Sé það ekki hægt í samstarfi við Sjálfstæðisfl.verður þessu stjórnarsamstarfi að ljúka og ganga til alþingiskosninga í haust.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér fyrir innleggið.Ég spyr líka hvar eru þolmörk þjóðarinnar.
Kristján Pétursson, 5.6.2008 kl. 23:52
Sæll Kristján og takk fyrir pistil
Evra segirðu, já - Eistland er einmitt núna beintengt við evru og verðbólga og vextir eru þar jafnvel hærri en á Íslandi. Verðbólga í ESB er núna 100% yfir verðbólgumarki evrópska seðlabankans. Meðalatvinnuleysi í ESB er núna 7,1% og er í sögulegu lágmarki en atvinnuleysi er aðeins 1-2% á Íslandi. Atvinnuleysi ungmenna undir 25 ára aldri í ESB er á mörgum stöðum allt að 25%.
Fasteignaverð lækkar einnig hratt á mörgum stöðum í heiminum og setur fólk einmitt í svipaða aðstöðu, því miður. Þetta er alls ekki gaman. En þurfum við ekki a bíta dálítið á jaxlinn enn Kristján? Það væri sennilega eins og að hella bensíni á eldinn að grípa til aðgerða einmitt núna. Evra eða annar gjaldmiðill hjálpar ekki neitt ef allt flýtur í bensíni í hagkerfinu. Krónan hefur verið misnotuð aðeins of mikið í dálítinn tíma.
Kanski væri hugmynd að reka bankana út landi. En það er víst ekki hægt því þeir eru jú ekki útlenskir. Kanski er nóg að gefa þeim eitthvað róandi til að sofa smástund á :)
Gunnar Rögnvaldsson, 6.6.2008 kl. 07:36
Gunnar ég hélt að þjóðir innan ESB yrðu að halda sig við reglur ESB varðandi verðbólgu - og vexti.Nýjar þjóðir innan bandalagsins yrðu inna ákveðins tíma að ná þeim markmiðum.Þú segir að verðbólgumarkmið innan ESB séu 100 % hærri,en hjá okkur eru verðbólgumarkmið Seðlabankans 2,5% en styrivextir bankans 15.5 % eru það ekki 600%.Það er hins vegar rétt hjá þér að atvinnuleysi innan ESB er margfalt hærra en hér.Eins og þú veist hafa öll ríki innan ESB atvinnuréttindi hjá okkur,en samt er atvinnuleysið hér svona lítið.Ég held að svo muni verða áfram a.m.k.næstu árin.
Kristján Pétursson, 6.6.2008 kl. 21:24
Sæll Kristján og þökk fyrir svar.
Það er ekki hægt að halda verðbólgu niðri með reglugerðum. Verðbólga í heild í ESB er núna næstum 100% yfir markmiðum ECB. Þetta eitt og sér væri næg ástæða fyrir Þjóðverja til að segja sig undan evru því þáttaka þeirra í evru er háð því að þeir muni ekki koma ver út úr því en ef þeir hefðu verið með sinn eigin seðlabanka áfram og haft eigin gjaldmiðil. Síðast þegar verðbólga nálgaðist 4% í Þýskalandi þá voru stýrivextir Bundesbank 9%, þetta var árið 1987. Þjóðverjar eru mjög óánægðir með evruþátttökuna, enda er Þýskland orðið mjög slappt sem hagkerfi.
Næstum allur vöxtur innan ESB kemur frá Bretlandi og frá nýju ríkjunum sem eru að byggja sig upp eftir gereyðingu kommúnismans. Ísland hefur haft 45% hagvöxt á meðan Þýskaland hefur haft 16% hagvöxt samanlagt á síðustu 10 árum
Núverandi veribólga í ESB er eins og stendur hér. Mismunurinn á milli landana er mikill. Íslendingar virðast sumir halda að ef þeir gangi í ESB að þá muni verð á hinu og þessu lækka, og er þá oftast talað um verð á matvælum. En þessi umræða er nákvæmlega sú sama og fer fram INNAN landamæra ESB. Danir eru súrir yfir að Þjóðverjar eða Búlgarar hafi mun ódýrari mat. En enginn vill þó vera á laununum Þjóðverja eða Búlgara og enginn vill búa við kaupmátt þeirra. Það er alveg hægt að fella niður tolla án þess að ganga í ESB.
Það er alltaf verið að hamra á því að þetta eða hitt muni bráðum fara að virka í ESB samstarfinu. En sjúklingurinn mun sennilega drepast áður en lækningin mun koma. Ég er búinn að búa í þessu hagkerfi í 23 ár og það sem ég veit, og sem þið vitið ekki, er það að þið Íslendingar hafið alltaf haft miklu betra efnahags og atvinnuástand en allir þegnar í ESB. Innri markaðurinn vikrar ekki og öll löndin eru svo hrædd við að lenda í halla á ríkisútgjöldum að þau þora ekki að gera neitt til að bæta ástandið.
Fréttin frá því í gær um að evra hindrar atvinnusköpun er alveg sönn. Margir hafa bara ekki veitt þessu neinn gaum. Sjálfur er ég búinn að vita þetta lengi, og það sama gildir um flesta sem hafa hugsað bara smávegis út í hvað það er sem skapar vöxt í samfélögum okkar, þ.e. frelsið (einstaklings- og athafnafrelsi og sjálfsábyrgð). Þegar frelsið og sjálfsábyrgðin hverfur hjá einstaklingum og þjóðum, þá munu þær sjálfkrafa verða fátækari og fátækari. Það er vegna þessa að ESB dregst alltaf meira og meira aftur úr bæði Bandaríkjamönnum og Íslendingum.
Uppspretta velmegunar og ríkidæmis verður alltaf frelsið. Þessvegna dó USSR. Þeir höfðu ágætis kerfi skriffinna og ágætis menntakerfi og ágætis vísindamenn. En það hjálpaði þeim ekki neitt. Einstaklingsfrelsið og sjálfsábyrgðina vantaði alveg. Ekkert var hægt nema með hjálp hins opinbera.
ESB er að verða mjög voldugt sem bákn. Uppspretta frelsisins liggur dýpra í manninum en flestir hagfræðingar og hagfræðibækur geta nokkurntíma sýnt fram á á pappír. Þar sem formúlurnar enda þar tekur við það fyrribæri sem hvergi er hægt að sýna fram á með formúlum og stærðfræðikenningum um efnahag þjóða. Þessu gera fæstir sér grein fyrir. En það er þetta fyrirbæri sem hefur gert Ísland að einni ríkustu þjóð í heimi. Ekki glopra því úr höndunum fyrir tíkall.
Gunnar Rögnvaldsson, 7.6.2008 kl. 01:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.